Merkilegur viðsnúningur íhaldsins!

Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu í borginni er allur annar en þegar hann er við stjórnvölinn. Hér áður fyrr, á velmektarárunum, stóð hann dyggan vörð um hagsmuni olíufélaganna enda voru þeir og eru í eigu flokksgæðinganna.
Nú hins vegar er gjafa­gjörn­ing­ur vinstri meirihlutans til olíu­fé­laganna gagnrýndur harðlega og það reyndar með réttu!
Vandamálið er þó það að hæpið er að hugur fylgi hér máli. Talað sé með tungum tveim, stjórnarandstöðutungunni annars vegar og meirihlutatungunni hins vegar.
En hvað með það. Þessi fyrirhugaða blokkarbygging við Háskólabókasafnið er auðvitað algjörlega út úr kú. Enda eru nóg þrengslin þar nú þegar, á þessum fjölmennasta vinnustað landsins.


mbl.is Andmæli Háskólans við Birkimel ekki lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta "snarruglaða þéttingar-dogma"!

Mæl þú kvenna heilust, Sólveig Anna! Þetta þéttingardogma leiðir ekki aðeins til slæms birtuskilyrða í blokkarhverfum heldur einnig til stórhækkaðs íbúðaverðs sem allt venjulegt fólk hefur ekki efni á. Ástæðan er fyrst og fremst algjört lóðaorkur í borginni en von um hátt lóðaverð er eimitt það sem liggur að baki þessari dogmu um þéttingu byggðar.
Annað er einfaldlega fyrirsláttur. Borgin hefur verið illa rekin lengi, mikil skriffinnska og útþennsla "bálksins" hefur gert það að verkum að allar klær hafa verið úti til að mata krókinn þar á meðal á rándýrum lóðum.
Þetta hafa svo lukkuriddarar Hrunstímans nýtt sér og byggja eins mikið magn og hægt er á lóðum þeim sem þeir hafa keypt á okurverði, annað hvort af borginni eða af öðru stórhöfðingjum eins og Ólafi Ólafssyni og fleiri lóðabröskurum.
Borgarstjórnarmeirihlutinn gerir auðvitað ekkert í þessum málum, sem þeir þó geta í gegnum skipulagsráð og byggingarfulltrúa, enda þeim í hag. Skipbrot vinstrimennskunnar er algjört og kominn tími til að fá almennilegan Verkamannaflokk til að koma skikkan á málefni höfuðborgarinnar.


mbl.is Sólveig Anna gagnrýnir þéttingu byggðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"leggja undir sig"?

Mikið er þetta nú hógværlega orðað hjá Mogganum. Innlimun svæðisins og þjóðernishreinsanir ("flytja" íbúana í "suðurátt") ekki nefnt á nafn. Svo á auðvitað að einkavæða neyðaraðstoðina! Öll fréttin er skrifuð í hlutleysisstíl. Ekkert um algjört brot á alþjóðalögum, um stríðsglæpi og um rasisma "Öryggisráðs Ísraels".
Áróðurinn gegn Rússum vegna stríðsins í Úkraínu er allur annar. Þar er talað m.a. um fullkomna innrás þeirra í landið, þrátt fyrir að þeir hafi einungis komið íbúunum þar til hjálpar að þeirra eigin beiðni.
Ekki báðu Gazabúar um þessa "aðstoð" Ísraela.
Svo heyrist auðvitað ekkert í ráðamönnum á Vesturlöndum vegna þessara illu tíðinda en nógu hátt gjamma þeir gegn Rússum í stríðinu í Úkraínu. Og fjölmiðlarnir spila með.


mbl.is Staðfesta áætlun um að leggja undir sig Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför að útivistarmöguleikum almennings

Svo virðist sem skipuleg aðför að möguleikum íbúa höfuðborgarsvæðisins til útivistar sé yfirstandindi þessi misserin.
Fyrst stóð Ísavía og Samgöngustofa fyrir stórfelldum skemmdum á Öskjuhlíðinni þannig að nú lítur stórt svæði þar út eins og eyðimörk og svo nú þetta með Heiðmörk. 
Hvort tveggja er undir yfirskini eins konar "öryggis". Flugöryggis í Öskjuhlíðinni þó svo að svæðið, þar sem tré hafa verið fjarlægð, sé miklu stærra en hægt sé að réttlæta það "vegna flugöryggis". Ísavíaeyðimörkin er ekki einu sinni í beinni stefnu við flugbrautina og því algjör óþarfi að fella þetta mörg tré.
Sama virðist vera á ferðinni í Heiðmörk. Yfirskynið er vatnsöryggi en meðalið miklu róttækara en ástæða er til.
Í báðum þessu tilvikum er gengið á sveitarstjórnarvaldið. Bæjarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu virðast ekki hafa neitt um þetta að segja. Annars vegar er það sjálfstjórnarfélag í eigu ríkisins, Isavía, sem gengur fram með þessu offorsi og hins vegar fyrirtæki í eigu Orkuveitunnar, Veitur, sem einhverra hluta vegna þykist eiga vatnsból höfuðborgarsvæðisins og haga sér að eigin geðþótta með þá "eign" sína.
Er ekki kominn tími til að sveitarfélagin á höfuðborgarsvæðinu taki sig saman og hrindi af sér þessa aðför að lögmætum yfirráðum sínum yfir eigin málefnum? Er þau ekki í raun lögvarin?


mbl.is Bæjarstjórar efast allir um bílabannið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð í tíma töluð!

Hér er verið að gagnrýna öskur í lýsingum íþróttafréttamanna á leikjum sem sýndir eru á Stöð tvö sport.
Þetta á einnig við um RÚV og er einkar hvimleitt. Maður neyðist til að slökkva á hljóðinu til að losna við öskrin en þar með missir maður af stemmningunni á áhorfendapöllunum.

Svo skilaboðin eru: Hættið þessum öskrum og leyfið okkur að njóta leiksins án þeirra. 


mbl.is Þessi endalausu öskur eru of mikið af því góða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mogginn að Trumpast?

Nokkuð sérkennileg frétt þetta frá málgagni Flokksins. Vísað er í bókun Ingvars Smára Birg­is­sonar en lesendum til upplýsingar er þessi náungi fulltrúi Sjálfstæðismanna í stjórn RÚV, áður formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og enn fyrr formaður hinnar illræmdu ungliðahreyfingar Flokksins, Heimdallar!
Og af hverju er verið að gera þátttöku RÚV í þessu ICEwater verkefni tortryggilegt þar sem stofnunin er aðeins ein af fjölmörgum stofnunum og félagasamtökum sem fær þennan styrk? Það taka 23 slík þátt í því.
Verkefnið gengur út á að að vernda vatn hér á landi og gera rannsóknir á því með það að markmiði að auka gæði þess. Þess vegna er auðvitað gott að fjölmiðlar komi að slíku.
Já hver er hin raunverulega ástæða þessarar "bókunar" og þessara "varúðar"orða. Ætli Mogginn og Flokkurinn sé á móti vatnsvernd - og þá af hverju?
Nú er mikið hamrað á þörf á auknum vatnsvirkjunum sem vel getur stangast á við verndunarhugmyndir. Svo er það auðvitað CarbFix æðið sem gengur nú yfir íslensk athafnaskáld. Það krefst mjög mikillar vatnsnotkunar, ætli það sé kannski aðalástæðan fyrir þessu andófi?
Sjá um ICEwater hér en því var komið af stað með forystu Umhverfis- og Orkustofnunnar með blessun Umhverfissráðuneytisins í ráðherratíð Guðlaugs Þórs og tekur ráðuneytið þar þátt!: 
https://uos.is/frettir/icewater-verkefnid-hafid

 

 


mbl.is Evrópustyrkir til RÚV athugaverðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dægurhiti?

Sérstakt þetta hugtak, dægurhiti og dægurhitamet, sem Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur virðist nota mikið (sbr. þessa frétt frá í gær). Hann notar það reyndar rangt því hann talar jú um sólarhringsmet. Ég fann ekki hugtakið dægurmet í orðskýringunum á heimasíðu Veðurstofunnar en dægur merkir jú yfirleitt hálfur sólarhringur. Nú var þetta "met" slegið á degi þegar hitinn var svo til jafn allan sólarhringinn, enda háttar svo til þegar skýjað er og rigning. Því finnst mér nær að tala um sólarhringsmet (þó það sé óþjálla) því það skilst jú betur - og er réttara því það var frá miðnætti til miðnættis.
Framundan er hins vegar kaldari tíð, sólrík með frosti á nóttinni en hlýju veðri yfir daginn. Þá passar betur að greina á milli dægurs og sólarhrings.


mbl.is Dægurhiti aldrei hærri í Reykjavík í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svíar minnast Friðriks Ólafssonar

Sænska skáksambandið minntist Friðriks á fallegan hátt á heimasíðu sinni í fyrradag. Þar er sagt frá afrekum hans við skákborðið, sem og starfs hans sem forseta Alþjóðaskáksambandsins, Fide. Friðrik hafi verið frægur fyrir sinn heillandi (eleganta) skákstíl og birtar tvær sigurskákir hans gegn heimsmeisturum í skák.
Sú fyrri var gegn Bobby Fischer á millisvæðamótinu í Portoroz árið 1958 en þar tryggði hann sér þátttöku í áskorendamótinu um heimsmeistaratitilinn ári seinna.
Hin skákin var gegn Mikael Tal og er frá árinu 1974.
Þær eru báðar sýndar hér og vel þess virði að renna í gegnum þær. Skákin gegn Tal er algjört meistaraverk og sýnir hversu sterkur og teknískur skákmaður Friðrik var langt frameftir aldri.

https://schack.se/nyhet/internationellt/2025/04/islands-schackprofil-fridrik-olafsson-har-lamnat-oss/


mbl.is Þjófstörtuðu Reykjavíkurskákmótinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-draumurinn úti?

Hætt er við að Evrópusambandsdraumur Viðreisnarstjórnarinnar sé að snúast upp í martröð við þessi tíðindi. Með aðild munu tollar á útflutningsvörum okkar Íslendinga til Bandaríkjanna hækka um 10% (úr 10 í 20). Kannski ekki mikið en nóg samt ef miðað er við harmakveinið sem heyrist frá ESB vegna þessara tollahækkana Bandaríkjastjórnar.
Svo hótar mafían í Brussel hefndartollum þannig að tollar á vörum þaðan munu eflaust snarhækka ef af þessu tollastríði verður.
Annars er þessi umræða hin undarlegasta, en svo sem ekkert öðruvísi en vanalega. Engin rannsóknarvinna hjá fjölmiðlum - og ekki hjálpa pólitíkusarnir til.
Einungis upphrópanir um hve Trump er vondur og er að setja allt í bál og brand.

Samt virðist sem tollar á vörum frá Bandaríkjunum til Evrópu séu enn miklu hærri en í hina áttina. Hækkunin sé aðeins helmingur af þeim tollum sem vörur þaðan þurfa að sæta. 
Þetta á einnig við hér á landi. Engar upplýsingar til almennings um hve háir tollar eru á innfluttum vörum frá Bandaríkjunum. Miklu hærri en 10%?


mbl.is Tollar Trumps: Samanburður á Íslandi og vinaþjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aprílgabb náttúrunnar - og fjölmiðla?

Þetta gos er auðvitað aprílgabb eins og allt í fjölmiðlunum (allt árið um kring), hvorki fugl né fiskur. Líklega með ræfilslegustu gosum síðan eldarnir byrjuðu á Reykjanesi. Segja má að því hafi lokið áður en það byrjaði miðað við fullyrðingar um rosalega kvikusöfnun og hættu á stórgosi.
Enda var umfjöllun fjölmiðlafólksins í samræmi við það til að byrja með: Hamfarir!! Svo er aðeins dregið úr og sagt "ekki stórbrotið", eða "ekki mjög mikið" o.s.frv. 

Nær væri auðvitað að segja eins og er: Þetta gos er óttalegur ræfill!


mbl.is Beint: Eldgos á Reykjanesskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Torfi Kristján Stefánsson

Höfundur

Torfi Kristján Stefánsson
Torfi Kristján Stefánsson
Höfundur er áhugamaður um hina ólíkustu hluti

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband