Til að fara með hagnað bankanna úr landi?

Merkilegur maður hann Ásgeir Jónsson. Hann var helsti talsmaður útrásarvíkinganna í bankakerfinu fyrir Hrun og dásamaði sterka stöðu þeirra og íslenska fjármálakerfisins.

Að launum var hann gerður að dósent í hagfræði í HÍ.

Nú er hann við sama heygarðshornið og hvetur enn til útrásar, nú arðs erlendra eigenda bankanna (Arions- og Íslandsbanka), en Birna bankastjóri síðarnefnda bankans kvartaði einmitt, síðast í gær, mjög yfir höftunum sem kæmu í veg fyrir að hægt væri að fara með arðinn úr landi.

Já, "hver sem svíkur sína huldumey, verður [ekki] erfiður dauðinn."


mbl.is Aðstæður til afnáms hafta aldrei betri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri ekki nær að taka uundir gagnrýnina?

Það er merkilegt að heyra hljóðið í Helga Hjörvar undanfarið. Alltaf þegar Framsóknarmenn sýna smá dug og rámar í kosningarloforðin um að bæta samfélagið kemur Helgi og gerir lítið úr þeim.

Ég vil minna á að Samfylkingin, ásamt VG, hafði fjögur ár til að "setja bönkunum skorður" en gerðu ekkert til þess. Það mátti jú ekki "handstýra" bönkunum.

Nú hins vegar, í stjórnarandstöðu, muna þingmenn kratanna, maður eins og Helgi, ekki lengur eftir þessu eða láta sem þeir muna það ekki.

Stjórnarandstaða Samfylkingarinnar nú virðist ganga út á það eitt að grafa undan Framsókn. Hvers vegna?

Til að komast undir sængina hjá íhaldinu í stað Framsóknarmaddömunnar?


mbl.is Pínleg gagnrýni á banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gosinu að ljúka

Enn eitt dæmið um að gosinu í Holuhrauni sé að ljúka, sem og hættunni við eldsumsbrot undir jökli.

Nú eru fimm dagar síðan jarðskjálfti yfir 2 af stærð hefur orðið í Bárðarbungu.

Þá hefur ekki verið jarðskjálfti yfir 5 af stærð síðan 8. janúar, eða í meira en einn og hálfan mánuð, en var nær daglegt brauð fyrir þann tíma.

 


mbl.is Sjö skjálftar við Öskju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, spillingin sko!

Spillinginn innan Sjálfstæðisflokksins lætur ekki að sér hæða (svo eru kratar að hneykslast mest á Framsókn!).

Koma skal sínu fólki að hvað sem það kostar - í trausti þess að minni almennings nær skammt.

Ef menn eru ekki búnir að gleyma því þá tengdist Þórey þessi blessunin, sem annar aðstoðarmaður ráðherra, hælismálinu fræga sem neyddi innanríkisráðherrann Hönnu Birnu til að segja af sér og kom hinum aðstoðarmanninum á bak við lás og slá.

En ekki hana Þóreyju. Hún fær vegtyllurnar enda er þessi ráðherra, sem er svona örlátur, af sama kaliberi og Hanna Birna. 

Það verður fróðlegt að fylgjast með ráðherranum í framhaldinu. Dirfska hennar er mikil og eykst eflaust á næstunni frekar en hitt - ekki síst ef hún kemur náttúrupassanum í gegn og svo stóriðju og virkjunum í hvert krummaskuð og á hvern örfokamelinn.


mbl.is Þórey skipuð formaður Ferðamálaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróður eða?

Það er oft talað um að fjölmiðlar séu fjórða valdið - en jafnframt að þeir hafi fyrst og fremst það hlutverk að segja hluti sem þykir passandi á hverjum tíma. 

Svo var í aðdraganda hrunsins þegar athafnamönnunum "okkar" var daglega hampað fyrir snilld sína og útsjónarsemi. Nú er talað um slíkt hjá fjölmiðlum í útlöndum. Þeir, ásamt stjórnmálamönnunum, auki mjög á ótta fólks við hryðjuverk - og séu þannig öflugustu terroristarnir sjálfir.

Hér heima sjáum við þetta best í umfjölluninni um fjölmiðlagosið í Holuhrauni og hugsanlegu gosi undir jökli.Það er sama hve alvarlegir jarðvísindamenn eins og Magnús Tumi Guðmundsson og Páll Einarsson endurtaka það oft, að sama sem engin hætta sé á gosi í Bárðarbungu, sífækkandi jarðskjálfar þar séu besta dæmið um það, þá er samt sem áður enn verið að "vonast" eftir einhverju stærra og meira. Skiljanlegt svo sem því engar fréttir eru vondar fréttir fyrir fjölmiðlana.

Svo eru auðvitað nokkrir vísindamenn sem eru einstaklega lagnir við að fóðra þessar tilneigingar hjá fjölmiðlafólki - og hrópa eins og drengurinn forðum: "Úlfur, úlfur". Svo tekur enginn mark lengur á þeim þegar hinn raunverulegi vágestur kemur.


mbl.is Hvar mun gjósa næst?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gosið að hætta

Gosið í Holuhrauni er greinilega að lognast út af. Er þetta í annað sinn á stuttum tíma sem engin jarðskjálfti er yfir 3 á Richter og hefur enginn skjálfti verið í námunda við það síðan klukkan 18 á laugardaginn (enginn yfir 2 að stærð):

http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar/vatnajokull/

Það er af sem áður var þegar skjálftar yfir 3 á stærð var daglegur viðburður og margir vel yfir 4 að stærð.

Í ljósi þess var fróðlegt og nokkuð absúrd að horfa á þáttinn um Holuhraun á RÚV í gærkvöldi (sunnudagskvöld). Hann var greinilega gerður áður en fór að draga verulega úr gosinu og jarðhræingum nú í febrúar.

Menn, sem tekin voru viðtöl við, voru t.d. enn að réttlæta "varúðar"ráðstafanir þær sem gerðar hafa verið - og að þeim verði ekki breytt fyrir en í vor (í apríl í fyrsta lagi).  

Þá var enn talað um þetta gos sem hið merkilegasta í yfir 200 ár (frá Skaftáreldum) og lærdóminn sem af því mætti draga.

Samt hefur þetta gos í raun og veru aðeins farið fram í fjölmiðlum. Það er jú eins langt frá byggð og hugsast getur og einu áhrifin frá því hefur verið gasmengunin sem öðru hverju hefur þjakað nágrannabyggðalögin. Kötlugosið 1918, Heklugosið 1948, Gjálpargosið þegar brúna tók af á Skeiðarársandi og Eyjafjallagosið eru greinilega ekki neitt á við þetta fjölmiðlagos upp á öræfum!!!

Samt er þetta dýrasta gos Íslandssögunnar, þ.e. kostað ríkissjóð mest allra gosa. Aukafjárveiting vegna þess á síðustu fjárlögum nam 600 milljónum króna. Það hefur eflaust margir aðrir glaðst yfir því að fá slíka fjárveitingu í eigin rannsóknir.

Ekkert var minnst á þetta í áðurnefndum sjónvarpsþætti og aðeins ein hálfkrítísk rödd heyrðist. Annars voru þetta drottningarviðtöl við alla þá sem hafa komið að rannsóknum og ákvarðanatöku vegna gosumbrotanna - þ.e. fulltrúa þeirra stofnana sem hafa fengið sem mest fjármagn til sín vegna þeirra.

Þetta kemur auðvitað að vissu leyti á óvart því annar framleiðandi og stjórnandi þáttanna er afkomandi Ómars Ragnarssonar sem hefur hvað ötulast gagnrýnt almannavarnir, veðurstofuna, umhverfisstofnun og jarðvísindafólk fyrir ýkjukennd viðbrögð við gosinu - og allt að því valdníðslu við lokun svæða við gosstöðvarnar (meira að segja lokun svæða langt frá þeim).

Já, það hafa ekki margir hugrekkið hans Ómars Ragnarssonar. Flestir af yngri kynslóðinni hugsa jú fyrst og fremst um að hafa rétta aðila góða svo þeir fái nú að sjá um fleiri verkefni fyrir þar til bæra aðila - fyrir þá sem völdin hafa og fjármagnið.

 

 


mbl.is Stærstu skjálftarnir um tveir að stærð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur fyrir Grikki!

Þetta er nú sérkennileg frétt hjá Mogganum. Á erlendum fréttastofum er aðalatriðið það að Grikkir fá áfram neyðaraðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu til fjögurra mánaða - og geta því greitt af skuldum sínum á þessu tímabili.

Dregið hefur verið úr kröfunum til Grikkja og líkur á að komið verði enn meira til móts við þá áður en mánuðurinn er allur.

Þetta er alveg ný staða því áður hafði t.d. fjármálaráðherra Þýskalands sagt að Grikkir þyrftu að uppfylla öll skilyrðin sem sett voru fyrir neyðaraðstoðina - sem nú þarf ekki. Talað er um að Merkel hafi komið vitinu fyrir þennan ráðherra sinn, eftir samtal við forsætisráðherra Grikkja.

http://www.dn.se/ekonomi/grekland-far-fyra-manaders-respit/

 


mbl.is Þurfa að uppfylla ströng skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ármann og Magnús

Ólíkt hafast þeir að félagarnir Ármann Höskuldsson og Magnús Tumi Guðmundsson. Meðan Ármann gerir sem mest úr gosinu, - og hættuna af því - eins og kom fram á mjög fjölsóttum fundi um daginn, kemur Magnús Tumi fram með hina raunverulegu stöðu. Það hafi dregið mjög úr gosinu og það sé að fjara út.

Er þetta dæmigert fyrir það sem getur rúmast innan sömu stofnunar og sömu deildar innan Háskólans, populismi og lobbýismi annars vegar og fagmennska hins vegar?


mbl.is „Verði búið fyrir sumarið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um typpi og trú

Ekki veit ég nú alveg hverjir fara á límingunum vegna skrifa Jóns Gnarrs um trúna, vísindin, guð og guðleysið. Vísindin eru sannindi, sagði hann, nokkuð sem ég hélt að menn hafi hætt að fullyrða fyrir um fimmtíu árum eða svo. Vísindi og trú eru ekki lengur þær andstæður sem löngum hefur verið talið, eða allt frá tímum upplýsingarinnar. Vísindin byggjast á tilgátum, þó oft "sannanlegum" þangað til annað reynist sannara, rétt eins og trúin.

Annars er svar sr. Sigurðar Árna Þórðarsonar í Fréttablaðinu í dag nokkuð gott, a.m.k. þetta (sem kom af gefnu tilefni): "Að fara úr nærbuxunum og hrista sprellann gengur í nektarnýlendum en dugar ... ekki til að skilgreina fólk. Við eigum að virða fólk en typpa það ekki."

Einnig svar þeirra presthjónanna Árna Svans og Kristínar Þórunnar, Svör þessi eru yfirveguð og alls ekki farin úr límingunum. Reyndar ekki heldur fésbókarfærsla sr. Jónu Hrannar sem vitnað er í.

Því er auðvitað spurning hver sé farin á límingunum - ef nokkur?!

 


mbl.is Prestar fara á límingum yfir Jóni Gnarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokum hringveginum sunnan Vatnajökuls!

Ekki veit ég hvort þessi mikli fjöldi fólks hafi komið á fyrirlesturinn vegna þessa manns, eða vegna áhuga á gosinu. Ég tel reyndar einsýnt að það hafi verið vegna þess síðarnefnda þó svo að Ármanni þessum hafi mjög verið hampað í fjölmiðlum allt frá gosbyrjun - og reyndar einnig í Eyjafjallajökulsgosinu.

Það er nefnilega svo gaman að sjá mann að vinnu á vettvangi, með öskulagið framan í sér og ófrýnilegan sem mest má vera. Við skulum samt vona að hann hafi verið skár útlítandi á fyrirlestrinum í gær.

Ekki mætti ég á staðinn þrátt fyrir mikinn áhuga á þessu gosi. Ástæðan er sú að ég hef það á tilfinningunni að það sé ekki ást á vísindunum eða á sannleikanum sem drífur Ármann Höskuldsson áfram. Heldur sé það fyrst og fremst einhvers konar lobbýismi - til að fá enn meiri styrki til rannsókna á gosinu - og því sé allt í lagi að ýkja svolítið.

Ýkjurnar snerust fyrst um hina hræðilegu yfirvofandi hættu á hamfarahlaupi í Jökulsá á Fjöllum sem gerði það að verkum að allt vatnasvæði fljótsins var í fyrstu yfirlýst hættu- og bannsvæði - og er svo enn að hluta.

Nú virðist það ekki vera nóg að mati Ármanns, heldur leggur hann alla sandana sunnan Vatnajökuls undir að auki og gengur svo langt að fullyrða að hlaup úr Bárðarbungu gæti skollið á sandana á um 15 til 20 mínútum. Hér gengur hann enn lengra en þegar hann lýsti því yfir að hlaup í Jökulsá á Fjöllum gæti skollið á vatnasvæðið þar á nokkrum klukkutímum. Þessu trúðu almannavarnir og lokuðu svæðinu snarlega fyrir allri umferð!

Af hverju þá ekki að loka líka hringveginum á söndunum neðan Vatnajökuls fyrst hættan er enn meira þar, getur skollið á með miklu minni fyrirvara?

Við skulum svo ekkert vera að spá í því að mjög hafi dregið úr gosinu í Holuhrauni og skjálftavirkni í Bárðarbungu minnkað mikið undanfarið.

Það gæti orðið til þess að duglegir jarðvísindamenn eins og Ármann Höskuldsson fengju minni fjárveitingar á næstu fjárlögum fyrir sínar brýnu rannsóknir!

 


mbl.is Hvernig á að réttlæta hverjir farast?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Torfi Kristján Stefánsson

Höfundur

Torfi Kristján Stefánsson
Torfi Kristján Stefánsson
Höfundur er áhugamaður um hina ólíkustu hluti

Færsluflokkar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.8.): 10
  • Sl. sólarhring: 35
  • Sl. viku: 222
  • Frá upphafi: 464558

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 201
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband