Ótrúlegur seinagangur lögreglu

Fólk í a.m.k. þúsund bílum varð fyrir miklum óþægindum vegna ótrúlegs seinagangs lögreglunnar á Blönduósi við að opna hringveginn í dag eftir bílslys á hringveginum nálægt Vatnsdal (frekar en Víðidal) í Húnavatnssýslu um hádegisbilið. Fimm og hálf klukkustund leið áður en vegur varð greiðfær á ný!

Á meðan beðið var, var fáeinum bílum einkum á norðurleið, hleypt í gegnum hjáleið nokkra sem lá um hlaðið á bóndabæ en þjóðvegurinn sjálfur var lokaður allan þennan tíma!

Hvað lögreglan var að dunda sér þennan óratíma er ekki víst, en það var ekki fyrr en á fimmta tímanum sem kranabíll kom til að fjarlægja bílana sem lentu í árekstrinum!

Líklega var löggan bara að sýna veldi sitt. Hennar væri mátturinn og dýrðin - og tæki sér eins langan tíma á slysstað og henni sýndist.

Hún getur þó þakkað sínu sæla að slysið hafi ekki orðið í gær þegar öll helgarumferðin var á leið í bæinn.
Hætt er þá við að meira hefði heyrst í fólki - sem reyndar sýndi alveg ótrúlegt langlundargeð í dag.
Það er greinilega orðið illu vant.


mbl.is Búið að opna hringveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst þessi færsla sýna algjört skilningsleysi á rannsókn slysa.  Þú vilt sem sagt að kastað sé til hendinni við rannsóknina vegna þess að margir biðu?

Þegar alvarleg umferðaslys eiga sér stað, þá gilda lög og reglur um rannsókn þeirra.  Rannsóknargögn eru síðan notuð til að ákvarða hver ber ábyrgð á slysinu, hvaða tryggingafélag ber tjónið eða hvort það skiptist á milli tryggingafélaga, hvort höfða skuli dómsmál vegna slyssins, hvort umhverfisaðstæður eða ástand vegar hafi valdið slysinu eða lagt eitthvað til þess og svona mætti lengi telja.  Hugsanlega komu sérfræðingar rannsóknarnefndar umferðaslysa á vettvang og þá þurfti að bíða eftir þeim.  Rannsókn slyss getur ekki hafist fyrr en búið er að koma öllum slösuðum af slysstað.  Það tók langan tíma.  Flökin eru fyrst færð af vettvangi eftir að rannsókn er lokið og þess vegna var ekki þörf á kranabílum fyrr en seint í ferlinu.

Þú hnýtir í Blönduóslögregluna eins og þar séu menn vanhæfir til verka eða haldnir einhverri valdasýki.  Er ekki alveg eins líklegt að það sé mannfæðin sem hafi tafið, ef það var þá einhver töf.  Eins var hér um að ræða mjög stórt slys sem kallaði á mjög umfangsmiklar aðgerðir á slysstað áður en rannsókn hófst.  Hefur þú eitthvað fyrir þér að um seinagang hafi verið að ræða?  Sást þú menn drolla við verkið?  Eða ert þú bara að nota orðið seinagangur vegna tímans sem þetta tók?

Því miður þá bjóða aðstæður víða ekki upp á það að hleypa umferð framhjá slysstað.  Samkvæmt fréttum var það reynt.  Aðrir sem þurftu að bíða gátu t.d. notað tækifærið til að skoða sig um á svæðinu.  Skammt frá (fyrir þá sem komu sunnan að) eru Kolugil, Hvítserkur, Bjarg með minnismerki um Gretti Ásmundsson, Breiðabólsstaður, Staðarbakki og fleiri áhugaverðir staðir.  Þeir sem komu norðan að hefðu getað skoðað kirkjuna á Þingeyri, ekið um Vatnsdal, snúið við á Blönduós, skoða hafíssetrið og fjölmargt fleira.

Ég skil óþolinmæðina, en vinna á vettvangi alvarlegra slysa tekur langan tíma og við því er nákvæmlega ekkert að gera.  Er til of mikils mælst að fólk sýni því skilning?

Marinó G. Njálsson, 5.7.2011 kl. 01:02

2 identicon

Ég hélt nú að þú tæki afstöðu með fólkinu en ekki kerfinu Marínó.

Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að svara öllu í þessum langhundi, en vil nefna tvennt.

Það fyrra er að ég talaði við mann í bílaröðinni sem hafði verið lögregluþjónn í 40 ár. Hann sagðist hafa orðið var við það að lögreglan tæki sér alltaf æ lengri og lengri tíma til að rannsaka slys á vettvangi. Lokaði heilu götunum í því skyni. Málið er bara það að slíkt er hægt að gera í Reykjavík og nágrenni, beina umferðinni annað, en það er ekki hægt á hringveginum. Þá verða menn að gjöra svo vel að hafa hraðar hendur.

Hitt er það ég hef verið mikið í Norður-Noregi undanfarin tíu ár eða svo og oft orðið vitni að svona slysum þar. Þar háttar til eins og hér að engar hjáleiðir eru mögulegar.

Norður-norska lögreglan leysir þetta vandamál með hag vegfaranda í huga. Flýtir sér að opna aðra akbrautina og stjórna umferðinni svo hún gangi greiðlega fyrir sig, meðan verið er að teikna upp slysstaðinn. Þannig tekst henni að lágmarka bílaröðina.

Það er til fyrirmyndar en ekki háttarlag lögreglunnar hér á landi.

torfi stefánsson (IP-tala skráð) 5.7.2011 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Torfi Kristján Stefánsson

Höfundur

Torfi Kristján Stefánsson
Torfi Kristján Stefánsson
Höfundur er áhugamaður um hina ólíkustu hluti

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 460030

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband