Enn einn spekingurinn!

Meðan tveir helstu og virtustu sérfræðingar okkar í eldgosa- og jarðvísindafræðum, þeir Magnús Tumi Guðmundsson og Páll Einarsson, hafa stigið fram og sagt afdráttarlaust að litlar líkur sé á gosi í Bárðabungu úr þessu, heyrist í enn einum spekingnum sem þykist vita betur. Ármann Höskuldsson er annar, en hann hefur ítrekað spáð fyrir goslokum í Holuhrauni og dregið upp hryllingsmyndir af hugsanlegri framvindu jarðhræringanna eftir það.

Einnig hefur verið spáð hamfaraflóði í Jökulsá á Fjöllum, ekki aðeins vegna goss í Bárðarbungu heldur einnig vegna þess að hraunið myndi stífla árfarveginn og stíflan svo bresta með tilheyrandi ósköpum.

Engin þessara "sviðsmynda" hefur þó orðið að veruleika og með hverjum mánuðinum sem líður verða þær ólíklegri.

Samt er enn verið að ala á einhverjum slíkum ótta - og enn gera Almannavarnir ráð fyrir harmfaraflóði í Jökulsá á Fjöllum. Enn er lokað niður að Dettifossi að vestanverðu og bannað að taka möl við ána norður undir þjóðveginum við Ásbyrgi til að byggja upp veginn upp að Dettifossi norðanfrá!

Líklega er allar þessar "varúðarráðstafanir" gerðar til að ná peningum út úr ríkinu, enda hefur það tekist mjög vel. Jarðvísindastofnun og Veðurstofan hefur fengið mörg hundruð milljóna aukaframlög úr ríkissjóði sem og lögreglustjóraembættin á svæðinu. Lobbýisminn hefur gengið vel hingað til og því ekki að halda honum áfram?

En til eru heiðarlegir menn í bransanum sem nenna ekki að taka þátt í þessum leik ...


mbl.is Ekki hægt að útiloka gos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útgefna spáin er allt önnur!

Merkilegt! Útgefna spá Veðurstofunnar er allt önnur (bæði á vedur.is og í textavarpinu)! Á morgun á að mestu að vera þurrt hér á höfuðborgarsvæðinu, eða frá því um kl. 6 í fyrramálið og fram yfir hádegi á sunnudag. Þá loks á að rigna hraustlega en aðeins fram á kvöld. Á sunnudagskvöldið, eða um miðnætti, á hann svo að snúast í suðvestanátt með éljum. 

Þannig mun aðeins rigna í nokkra tíma en í viðvörun Veðurstofunnar er gert ráð fyrir mikilli úrkomu (og vatnavöxtum) í tvo daga samfellt, einnig hér á Suðvesturhorninu!!!

Hvernig var aftur lagið með Bogomil Font: Veðurfræðingar ljúga?


mbl.is Varar við úrkomu og vatnavöxtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Starfsmenn gegnt lykilhlutverki?

Þessi yfirlýsing stjórnar Strætó sýnir nú einfaldlega að hún á stærri hlut í hneykslunum þeim sem hafa skakað fyrirtækið að undanförnu en hún vill vera láta.

Reynir Jónsson hefur nefnilega verið þekktari fyrir annað en að skapa öflugan og samhentan hóp starfsmanna, eins og fullyrt er í þessari yfirlýsingu.

Má þar nefna fyrir það fyrsta óánægju starfsmanna með framkomu Reynis gagnvart þeim, sem þeir segja einkennast af hörku og lítilsvirðingu. Nú síðast í október voru fréttir um mikla óánægju meðal vagnstjóra sem sögðu framkvæmdastjórann hóta þeim með uppsögnum ef þeir samþykktu ekki myndbandsupptökur í vögnunum.

Einnig muna eflast sumir eftir athugasemdum framkvæmdastjórans þegar fjallað var um öryggi farþega sem þyrftu að standa í strætó á leiðum út á land, þ.e. að þeim væri það í sjálfsvald sett hvort þeir tækju vagnana eða ekki!

Þessar deilur innan strætó hafa reyndar staðið lengi eða allt frá 2007 er trúnaðarmenn vagnstjóranna sögðu af sér allir sem einn. Þá var Reynir nýorðinn framkvæmdastjóri. Í yfirlýsingu frá þeim er talað um ógnanir framkvæmdastjórans í þeirra garð.

Samt lætur stjórnin eins og allt hefur verið í sómanum hjá manninum!! Hvað veldur - og hvers vegna er hann þá látinn taka poka sinn?


mbl.is Reynir hættir hjá Strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spáð kólnandi

Svo virðist sem Trausta verði ekki að ósk sinni um metár (og met-nóvembermánuð) því spáð er kólnandi veðri það sem eftir er mánaðarins. Meðalhiti verði milli 2 og 3 stig hér á Suðvesturhorninu.

Þá er spurning auðvitað hvort þessi "hlýindi" á árinu séu nokkuð til að hrópa húrra yfir. Hlýjustu mánuðurnir að tiltölu, janúar-febrúar og svo nóvember, eru þeir mánuðir sem mega vel vera kaldir (og með stillum) en sumarmánuðirnir júní og júlí, sem voru mun kaldari í ár en í meðalári, eiga að vera hlýir.

Meðalhitinn segir því ekki allt - í raun lítið sem ekkert - nema auðvitað að menn hafi sérstaklega gaman af met-ingi.


mbl.is Nýtt hitamet í Reykjavík?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svíar óánægðir

Svíar eru fúlir yfir því að þurfa að mæta Evrópuþjóð í stað Asíuþjóðar og finnst eðlilegt að sú þjóð sem kom í staðinn væri frá sama svæði (heimsálfu).

En hvað með það. Þetta er auðvitað gleðiefni sem vonandi verður til góðs fyrir íslenskan handbolta.

Það er þó ekki víst. Aron Pálmarsson hefur verið með yfirlýsingar um að íslenska handboltalandsliðið hafi ekkert erindi á HM - og hefur verið að leik meidda manninn nú í mjög langan tíma. Hvað er hins vegar að honum veit enginn.

Þó svo að hann nenni ekki að vera með á HM þá er annar lykilmaður landsliðsins að ná sér upp úr meiðslum og farinn að spila reglulega með sínu félagsliði, þ.e Rúnar Kárason. Með hann í liðinu með eða án Arons ætti íslenska landsliðið að geta bitið frá sér á þessu móiti.

Svo er auðvitað spurning um liðsvalið og þjálfarann. Aron Kristjánsson hefur ekki sýnt það hingað til að hann þori að taka áhættu og velja yngri leikmenn í liðið heldur stólar á gömlu jálkana, rétt eins og fyrirrennararnir, og með sama afleita árangri.

Vonandi verður þessi óvænta þátttaka til þess að ungir leikmenn fái tækifærið og mótið notað til að byggja upp framtíðarlandslið.

Með menn eins og Snorra Guðjóns, Arnór, Alexander og Róbert (á línunni) í liðinu er hætt við að liðið sökkvi enn dýpra í forarpyttinn en þann sem Alþjóða handknattleikssambandið var að bjarga íslenska handboltanum upp úr með þessari vægast sagt sérkennilegu ákvörðun sinni!

En vi tackar och tar emot!


mbl.is Ísland mætir Svíþjóð í fyrsta leik í Katar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanlegt

Þetta var nú búið að vera fyrirsjáanlegt í nokkra daga. Fyrst tilkynnti hún sig veika fyrir ríkisstjórnarfund um daginn því fjölmiðlar voru á staðnum - og svo frestaði Umboðsmaður alþingis að birta skýrslu sína um lekamálið - eflaust til að gefa Hönnu Birnu kost á að segja af sér.

Hættan við þessa ákvörðun hennar er þó sú að nú verði skýrsla Umboðsmanns ekki birt - og hann felli málið niður - sem og að samskipti ráðuneytisins og lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum verði ekki heldur rannsakað nánar. Kerfið verði þannig áfram jafn ógegnsætt og áður.

Vandamál Hönnu Birnu eru þó ekki úr sögunni. Hún situr enn sem þingmaður og sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og mun eflaust einnig þurfa að segja af sér þar.

Best hefði verið fyrir hana að gera það strax og fara að leita sér að vinnu utan stjórnmálanna. Það hefði einnig verið best fyrir flokkinn því það er alltaf erfitt að vera að burðast með lík í lestinni.


mbl.is Hanna Birna hættir sem ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglustjórinn og lekamálið

Þessi yfirlýsing fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum - og núverandi lögreglustjóra höfuðborgarinnar - er nú í meira lagi sérkennileg.

Fyrir það fyrsta eru það samskipti embættanna. Eins og allir vita er aðgreining löggjafar-, dóms-, og framkvæmdavalds einn af hornsteinum lýðræðisins. Þessi aðgreining virðist alls ekki hafa verið til staðar í þessu lekamáli - og aðgangur pólitísks aðstoðarmanns ráðherra að því lögregluembætti, sem sér um útlendingamál, algjörlega úr takti við það sem getur kallast eðlileg stjórnsýsla. 

Lögreglustjórinn segir hins vegar að þessi samskipti séu "algeng" og sér því greinilega ekkert rangt við þau.

Í öðru lagi segist hún hafa vitn­eskju sína um "margrætt minn­is­blað" úr fjöl­miðlum, þó svo að allar líkur séu á því að það hafi komið frá hennar eigin embætti (upplýsingar sem hún vill meina að sé skylda hennar að veita ráðuneytinu - enda algengt að það sé gert!).

Þetta hljómar nú alls ekki trúverðuglega. Og enn minni verður trúverðugleikinn þegar haft er í huga að lögreglustjórinn og innanríkisráðherrann eru góðar vinkonur (að sögn) og að "launin" fyrir greiðann (lekann frá lögreglunni til ráðuneytisins og þaðan í fjölmiðla - Moggans nota bene!) var æðsta embættið innan lögreglunnar: Lögreglustjórastaðan í Reykjavík!

Kannski var það einmitt plottið allt frá upphafi - að koma Stefáni Eiríkssyni úr sinni stöðu til að fá leiðitamari manneskju í embættið? Hælisleitandinn Omos hafi aðeins verið peð sem fórnað var í þeirri leikfléttu.


mbl.is Bað Sigríði um upplýsingar um Omos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróðurinn gegn IS á fullu

Merkilegt hve vestrænir fjölmiðlar eru reiðubúnir að ganga langt í að styðja hernaðaraðgerðir vestrænna ríkja í fjarlægum heimsálfum.

Nú er sem aldrei fyrr alið á ótta við "hryðjuverk" á Vesturlöndum í tengslum við stríðið gegn IS sem fjölmiðlamenn hika ekki við að kalla hryðjuverkasamtök - eftir pöntun frá Pentagon.

En það taka ekki allir fjölmiðlar þátt í leiknum - og ekki einu sinni allir vestrænir stjórnmálamenn. Eins og kunnugt er taka Danir þátt í hernaðinum  gegn "íslamska ríkinu" með loftárásum á liðsmenn þeirra í Írak. Nú er hins vegar einn helsti talsmaður dönsku stjórnarinnar í utanríkismálum, fyrrverandi utanríkisráðherra þeirra Holger K. Nielsen, farinn að efast um réttmæti þessarar íhlutunar. Ástæðan eru myndir og fréttir af hryðjuverkum herflokka sem styðja stjórnvöld í Írak. Þær hafa orðið til þess að hann telur það koma til greina að draga Dani út úr baráttunni gegn IS. Hryðjuverkin beinast nefnilega gegn almenningi sem eru sunnamúslimar fyrir það eitt að leiðtogar þessa trúarhóps styðja IS. 

Ekki virðist sem aðrir stjórnmálamenn á Vesturlöndum hafi áhyggjur af þessu framferði stuðningsmanna leppstjórnarinnar í Bagdad, enda hafa Bandaríkjamenn yfirleitt ekki skipt sér mikið af mannréttindabrotum þeirra hópa sem styðja þá í heimsyfirráðastríði þeirra. Og flestir vestrænu fjölmiðlanna spila með eins og venjulega. Það gildir sko ekki það sama um Jón og hann séra Jón:

http://politiken.dk/udland/fokus_int/fokus_IS/ECE2457469/sf-faar-soldaterhug-for-at-saa-tvivl-om-dansk-irak-indsats/


mbl.is Óttast „sleepers“ Ríkis íslams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegt íslenskt lið!

Það má segja eftir þennan leik að það er mesta furða hvað íslenska karlalandsliðið í fótbolta er komið með mörg stig. Liðið er einfaldlega ekki nógu gott og var hreinlega lélegt í þessum leik.

Ástæðan er að mínu mati fyrst og fremst rangt liðsval þjálfaranna og röng liðsuppstilling.

Einn sparkspekinganna í sjónvarpinu hélt því fram að Tékkar væru snillingar að lesa leiki andstæðinganna og hafi séð veikleikana á vinstri vængnum í þessum leik. Málið er bara það að þar var eina breytingin á íslenska liðinu. Emil Hallfreðsson var allt í einu látinn spila á hægri kanti eftir að hafa spilað vinstra megin alla hina leikina. Hvernig gátu Tékkar lesið þetta fyrir leikinn?

Veikleikar íslenska liðsins komu hins vegar vel í ljós í þessum leik. Fyrst er það Hannes markvörður. Hann hefur verið óöruggur í öllum leikjum keppninnar en það sloppið fyrir horn - þar til nú. Sjálfsmark hans var með því klaufalegra sem maður hefur séð. Við eigum þó góðan markmann sem loks fékk að spreyta sig gegn Belgum (Ögmund) og eiga þar stórleik, en fékk aðeins einn hálfleik.

Þá er auðvitað mjög hæpið að spila með Gylfa Sigurðsson sem varnartengilið. Allir vita hver er hans uppáhaldsstaða, í holunni fyrir aftan senterinn, eða senterana. Þar spilaði hins vegar hvítvoðungurinn Jón Daði Böðvarsson og sýndi það í þessum leik að hann á enn langt í land að geta spilað á þessu "leveli". 

Kannski er ástæðan fyrir því að Gylfi er látinn spila þarna sú að Aron Einar veldur engan veginn hlutverki sínu sem tengiliður. Maður sér varla sendingu frá hinum sem kemur íslenskri sókn af stað. Það eru fleiri leikmenn þarna sem eru að spila rangar stöður (svo sem Theódór Elmar og jafnvel Ari Freyr) eða eiga alls ekki heima í þessu liði (eins og Birkir Bjarnason).

En aðal vandamálið eru þjálfaranir. Þessir margrómuðu heiðursmenn klikkuðu algjörlega í liðsvali og leikskipulaginu í þessum leik. Að mínu mati klikka þeir reyndar oftar en ekki en hafa komist upp með það þar til nú.

 


mbl.is Grátlegt sjálfsmark felldi íslenska liðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Adólf Ingi lýsir aldrei leikjum ...

... hann fræðir bara okkur áheyrendur um það hvað hann veit mikið í fótbolta - um einstaka leikmenn - um gamla leikmenn hjá Belgum osfrv.

Svo þessar upphrópanir hans sýkt og heilagt um frábæra frammistöðu íslensku leikmannanna - en hann er svo sem ekki einn íþróttafréttamanna um það.

Ég tók nú alltaf hljóðið af þegar hann var að lýsa leikjum hjá RÚV - og gerði það einnig í gær! 


mbl.is Adolf Ingi fékk að heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Torfi Kristján Stefánsson

Höfundur

Torfi Kristján Stefánsson
Torfi Kristján Stefánsson
Höfundur er áhugamaður um hina ólíkustu hluti

Færsluflokkar

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.8.): 9
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 464355

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband