3.6.2014 | 07:16
"Þétting byggðar"
Þetta er reyndar aðeins eitt dæmi af mörgum hvernig hin svokallaða þétting byggðar gengur á hinar fornu minjar gömlu Reykjavíkur. Undanfarin ár og áratug hafa mörg hús við Grettisgötuna og Njálsgötuna frá byrjun síðustu aldar verið rifin og íbúðablokkir byggðar í staðinn. Átakanlegt dæmi er nú sýnilegt öllum aðeins austar á Njálsgötunni þar sem ný blokk hefur risið á kostnað tveggja gamalla húsa. Auk þess hefur hún þrengt svo að þriðja húsinu frá sama tíma, sem þó hefur fengið að standa, að garðurinn fyrir framan það hús er ekki nema svipur hjá sjón - en trén þar höfðu mikið verndargildi og áttu sinn þátt í því að þetta hús var ekki einnig rifið.
Eftirlit borgarinnar með framkvæmdum sem þessum virðist lítið sem ekkert, þó svo að gengið sé mun lengra en byggingarleyfið samþykkir og trén þar fjarlægð í óleyfi.
Svar borgarskipulagsins við kvörtunum íbúana vegna lóðarinnar við Grettisgötu 17 og silfurreynisins þar er í raun dæmigert fyrir borgina, "þannig eru lögin", þó þau séu í raun alls ekki þannig.
Silfurreynirinn er auðvitað friðaður rétt eins og húsin tvö á lóðinni, svo það er greinilega handvömm hjá skipulagsyfirvöldum að leyfa eyðileggingu hans.
Hins vegar efast ég um að framkvæmdirnar verði stöðvaðar. Nútíminn krefst sitt. Helst hótel í hvert hús í miðbænum og niðurrif gamalla og smárra húsa sem séu einungis leifar frá fátækri Reykjavík - og þarf að fjarlægja.
Kannski má segja að virðingarleysið fyrir sögulegum minjum hafi náð hámarki með borgarstjórnarmeirihlutanum síðustu fjögurra ára og stefnu þeirra um þéttingu byggðar, sem sé ekkert annað en fegrun á hinu raunverulega markmiði: Að rífa gamla, óhagkvæma draslið.
Svo verða auðvitað verktakarnir og "fjármagnseigendurnir" að fá sitt.
Skorað á borgina að hætta framkvæmdum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Torfi Kristján Stefánsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 2
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 460018
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 45
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hér má sjá hugmyndir talsmanns fyrrum meirihluta borgarinnar í skipulagsmálum, Páll Hjaltason, um þéttingu byggðar, í aðdraganda kosninganna 2010. Líta má á þessar hugmyndir sem stefnu borgarstjórnarmeirihlutans í skipulagsmálum árin 2010-14.
http://www.bestiflokkurinn.is/borgarstjornarflokkur/pall-hjaltason:
Hér talar hann fyrst fjálglega um varðveislu gamalla húsa, þ.e. um að vernda byggingararfinn. En síðan fer hann að takmarka þá vernd. Engin ástæða sé til að varðveita "slæm hús": "Góðu húsin eiga að standa áfram en hin eiga að fá að víkja fyrir nýjum."
Þá er auðvitað spurning hver metur það hvaða hús séu góð og hver slæm. Líklega Páll sjálfur sem núverandi formaður umhverfis- og skipulagsráðs og arkitekt.
Hannn mótmælir svo stefnunni "að halda í allt gamalt" auk þess sem hann mótmælir því sem hann kallar öfgafriðun.
Svar hans er að auka ekki húsafriðun heldur að hugsa borgina upp á nýtt. Þó það komi ekkki fram í hverju sú hugsun felst má sjá það í verðlaunatillögu hans og arkitektastofunnar sem hann vinnur hjá, +Arkitekta, að nýju húsi Listaháskólans við Laugaveg árið 2008.
Tillagan fólst í því að troða þar stærðar byggingu inn í takmarkað rými og leysa rýmisvandamálið með að rífa húsin í kring, þar á meðal þrjú falleg, gömul íbúðarhús. Sem betur fer kom Hrunið í veg fyrir þessar hugmyndir.
Nú er hins vegar farinn að vænkast hagur verktakanna og aðgangur að hagstæðum lánum til slíkra framkvæmda aukist mjög. Við getum því búist við fleiri svona uppákomum á næstunni ef Páll Hjaltason fyrrum varaborgarfulltrúi Besta flokksins og núverandi formaður umhverfis- og skipulagsráðs fær að ráða - og halda stöðu sinni.
En svo þarf ekki að vera. Sem betur fer féll meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins í kosningunum um helgina og inn kemur umhverfisverndarflokkur (VG), auk Pírata sem vilja opnari stjórnsýslu. Því er um að gera að hvetja þessa tvo flokka að standa í lappirnar í umhverfismálum borgarinnar í yfirstandandi samningum um meirihlutasamstarf - og standa þannig vörð um gömul hús og gamlan fallegan gróður í miðborginni.
Ekki veit ég hvernig Björt framtíð hugsar en miðað við daður þeirra við Sjálfstæðisflokkinn í nágrannabyggðarlögunum gæti sá flokkur verið erfiður viðfangs í slíkum samningum.
Hins vegar mun Samfylkingin eflaust hugsa sig tvisvar um áður en hún slítur slíkum viðræðum og fer að huga að því að ganga í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum.
Hver sem svíkur sína huldmey, verður nefnilega erfiður dauðinn – og næstu kosningar.
Torfi Kristján Stefánsson, 3.6.2014 kl. 09:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.