Færsluflokkur: Dægurmál

Loksins heiðarlegt hljóð frá Veðurstofunni

Nú, tíu dögum eftir jarðskjálftana miklu við Grindavík (mest 5 á Richter) er loks farið að heyrast heiðarlegt hljóð í Veðurstofufólkinu, sem hingað til hefur verið harla duglegt við að mála skrattann á vegginn varðandi "yfirvofandi" eldgos á svæðinu.

Flestir aðrir, sem ættu að hafa jafnmikið vit á málunum, hafa talið litlar líkur á eldgosi og líkurnar dvínað eftir því sem lengra líður frá stóru skjálftunum.

Þá hafa menn bent á að stór hluti húsanna í Grindavík sé algjörlega óskemmdur, kominn hiti og rafmagn í flestöll hús, og því ætti að vera hægt að flytja aftur inn í þau fyrr en seinna. 

Einn helsti sérfræðingur okkar í eldgosa- og jarðskjálftafræðum, Haraldur Sigurðsson, hefur bent á að orkan sem losnaði úr læðingi þann 11. nóvember hafi aðeins verið "0,5% af orkulosun sem varð í Suðurlandsskjálftunum árið 2000."

Samkvæmt þessu hefði átt að rýma allt Suðurlandsundirlendið aldamótaárið, allavega miðað við hvað gert var núna í Grindavík.
En sem betur fer var Veðurstofan þá aðeins veðurstofa en ekki náttúruvárstofnun og Almannavarnir hvorki fugl né fiskur - og Víðir, sem öllu kvíðir, fjarri gamninu góða!


mbl.is Líkur á gosi fara hægt minnkandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að mála skrattann á vegginn

Það er stór spurning hversu hæft þetta fólk er sem stjórnar málunum hvað varðar Grindavíkurbæ - og í raun mikið áhyggjuefni hvernig haldið er þar á málum.

Nú hefur verið spá eldgosi allt síðan jarðskjálftarnir í og við Grindavík hófust en samt hefur aldrei neinn gosórói mælst og engir kvikuskjálftar svo óyggjandi séð. Samt styttist alltaf í eldgosið að mati þessara snillinga.
Þá er sífellt verið að tala um að kvikan sé að nálgast yfirborðið en þó eru engar mælingar til sem staðfesta það. Þetta eru alltsaman ágiskanir sem sýnir hve þessir "vísindamenn", sem sífellt er verið að vitna í, vita í raun lítið um stöðu mála.

Nú bregður hins vegar við að maður eins Þorvaldur Þórðarson, sem hefur verið manna yfirlýsingaglaðastur hingað til, hefur dregið mjög í land og telur að líkur á eldgosi séu í mesta lagi um 30%.

Mér sýnist augljóst að það þurfi að taka þverbeygju í málinu og gera ráð fyrir að ekki gjósi í þessu sigdal (ekkert frekar en í Kelduhverfi um árið).
Einu áhyggjurnar sem stjórnvöld og íbúar þurfa að hafa er vegna jarðskjálftanna, en þó hefur dregið mjög úr þeim undanfarna viku eða í raun alveg síðan stóru skjálftarnir komu í byrjun. Einnig vegna sprungumyndana sem enn virðast vera að gerast.

Því ætti að vera ástæðulaust að forða verðmætum úr bænum úr þessu og jafnvel óhætt að leyfa íbúunum að byrja að koma sér aftur fyrir í þeim húsum og hverfum þar sem engar sprungur eru. 
Þetta óþarfa brambolt, sem gengur út á að allur sé varinn góður (rétt eins og skrítlan um nunnuna, kertið og smokkinn) er svo arfavitlaust, að líklega hefur ekkert toppað það hingað til.
Allt þetta lið, sem stjórnar atburðarásinni, virðist hugsa um það eitt að verða ekki gert að sökudólgi, ef eitthvað gerist sem getur kostað líf eða limu fólks, og því þessi harkalegu viðbrögð.

Svo er það auðvitað klíkuskapurinn varðandi hverjir fái að "bjarga" verðmætum, hverjir mega vera inni á hættusvæðinu eins lengi og það vill (svo sem fjömiðlafólk, fólk á vegum fyrirtækjanna í bænum og björgunarsveitafólk), meðan íbúarnir fá í mesta lagi 5-10 mínútur að ná í allra nauðsynlegustu hluti og þurfa að sækja þá í mesta flýti og stressi. Er nema von að íbúarnir eru að verða ansi leiðir og reiðir á þessari "stjórnun" og mismunun.

Já, hér er á ferð enn eitt klúðrið hjá Almannavörnum og öðru ráðafólki, sem virðist aldrei geta lært af sínum fjölmörgu mistökum. 


mbl.is Bendir til að kvika sé komin mjög ofarlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarmorðið á Gaza

Ekkert heyrist frá þjóðkirkjunni vegna þjóðarmorðsins og stríðsglæpa Ísraelsmanna á óbreyttum borgurum á Gaza.
Sú þögn verður æ yfirþyrmandi í ljósi yfirlýsingar 315 starfsmanna Háskóla Ísland um þennan glæp gegn mannkyni (og það án gæsalappa eins og Mogginn notar svo óspart og ósmekklega). 
Kannski ekkert skrýtið sbr. eftirfarandi kvæði eftir Jón frá Hvoli, verkamann og prentara í Reykjavík (d. 1949):
Krafta sljór vor kristindómur
kveður við sem bjölluhljómur;
er því nokkuð innantómur,
átök hans í flestu smá.
Tómt er hljóð í tómum sá.
Óvíst hvort hann orðast frómur
ef í fang er gróði.
Nærð er trú á nítján alda blóði.
 
Há þótt rísi Hallgrímskirkja
hún mun lítt þá strauma virkja
sem með leiftrum lýðinn styrkja
leið að velja ánauð frá.
Tómt er hljóð í tómum sá.
Forna tímans fyrsta yrkja
fárra nægir sjóði.
Nærð er trú á nítján alda blóði.
 
Þeir, sem hampa kreddum köldum
kennivalds á fyrri öldum,
olla meinum ótalföldum,
undir troða sannleiks þrá.
Tómt er hljóð í tómum sá.
Hræsni láta halda völdum,
hnekkja bræðra sjóði.
Nærð er trú á nítján alda blóði.
 

mbl.is Segja innrás á sjúkrahús „glæp gegn mannkyninu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syllu (sillu-) spekin!

Nú eru meira að segja fjölmiðlarnir farnir að gera grín að tilbúna fárviðrinu sem náttúruvársérfræðingarnir, Almannavarnir og aðrir slíkir aðilar eru að þyrla upp til að hræða almenning og stjórnvöld vegna hugsanlegs eða óhugsanlegs eldgoss við Grindavík eða Bláa lónið.

Silluspekin kemur þar t.d. við sögu en einnig Víðir, sem öllu kvíðir o.fl. Hann er nú kominn úr fríi og því skal hefjast handa við að útbreiða fagnaðarerindið enn og aftur, þ.e.  hræðsluáróðurinn.

Samt er í raun ekkert að gerast á svæðinu, engir kvikuskjálftar heldur einungis gikkskjálftar sem verða enn "átakanlegri" eftir því sem jarðskjálftamælunum fjölgar og þeir verða nákvæmari - og kvikuinnstreymið, ef eitthvað er, á miklu dýpi og langt frá því að stefna upp á yfirborðið!

En auðvitað verða fjölmiðlarnir að fóðra fólk á einhverri ógn, annars nennir enginn að fylgjast með fréttum og auglýsingatekjurnar snarminnka. Og Veðurstofan og Almannavarnir missa spón úr aski sínum, fá ekki sífellt aukið fjármagn úr sjóðum almennings eins og verið hefur - og fjölmiðlarnir missa áhugann á athyglissjúkum jarðvísindamönnum sem enn og aftur spá eldgosi innan nokkurra daga - því þeir hafa enn og aftur rangt fyrir sér!

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-11-08-er-silla-synatokupinni-thessara-jardhraeringa-396005


mbl.is Bylgjuvíxlmynd sýnir lóðrétta hreyfingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"heitt í hamsi"?

Var ráðherranum virkilega heitt í hamsi - og yfir hverju? Kannski vegna yfirstandandi þjóðarmorði á Palestínumönnum á Gaza, þar sem hundruð barna og almennra borgara eru drepnir á hverjum degi? Kannski vegna árásar Ísraelshers í gær á lest sjúkrabíla sem voru að flytja limlesta Palestínumenn, konur og börn á sjúkrahús í borginni?

Það er reyndar fleirum heitt í hamsi vegna þess síðarnefnda. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, er gjörsamlega miður sín vegna árásarinnar enda liggja limlestir líkamar farþeganna eins og hráviðri á götunni.
En Birgir Þórarinsson furðar sig á því að palestínskur ráðherra sé reiður vegna þessa, enda hefur Birgir þessi réttlætt fjöldamorð Ísraelshers á palestínskum almenningi með þeirri afsökun að Ísrael hafi "rétt á að verja sig"!

Og það gera fleiri Ísraelsvinir eins og flestum er kunnugt.
Eitthvað annað hljóð hefði nú heyrst ef Rússar hefðu gert slíkt hið sama í Úkraínu.

Já, hræsnin mun síst þér sóma, sagði skáldprestur einn eitt sinn, orð sem eiga einkar vel við um alþjóðastjórnmálin þessa dagana.


mbl.is Palestínskum ráðherra heitt í hamsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrsla vísindanefndarinnar um jákvæð áhrif hlýnunar

Í þessari frétt um fjórðu skýrslu Vísindanefndar um loftlagsbreytingar er eitt jákvætt nefnt sem er þetta: "Auk­in fram­leiðni gróðurs mun hafa já­kvæð áhrif á land­búnað". Annars er allt á neikvæðum nótum.
Ólíkt fjölmiðlunum hef ég gert úttekt á jákvæðum afleiðingum hlýnunarinnar, ekki þeim neikvæðu, sem og því sem frekar bendir til kólnunar undanfarið en hlýnunar. Þetta er byggt á sjálfri skýrslu nefndarinnar (þáttum í henni sem fjölmiðlarnir nefna ekki). Feitletranir eru mínar sem og flestir hornklofarnir [...].
Fyrst er það spáin: "Niðurstöður líkanreikninga benda til þess að hlýnun verði meiri norðan við landið en sunnan við það. Í mörgum líkönum gætir
tímabundinnar, staðbundinnar kólnunar. Jafnvel þó að hlýni á öldinni í öllum sviðsmyndum og flestum líkönum, gætir tímabundinnar, staðbundinnar kólnunar í mörgum þeirra. Slík kólnun er algengari suður af landinu og gætir skemur í heitari sviðsmyndum. Í 85 til 95% líkana gætir hennar skemur en 20 ár.
Um fornt veðurfar á Íslandi - og núna: "
Síðustu ár hefur hægt á þessari hlýnun".
Um Norður-Atlantshaf: "Markverð
kólnun [...] varð á hafsvæði suðvestur af landinu á öðrum áratug þessarar aldar".
Um jöklana: "heldur hefur hægt á rýrnun þeirra eftir 2010."
Um áhrif á náttúruna. Hið neikvæða nær eingöngu talið upp og varla (eða ekki) minnst á það jákvæða. Þó er hér smá skíma: “Jafnvel þó að markmið Parísarsamningsins, um að halda hnattrænni hlýnun innan 2°C, náist munu ræktarskilyrði hér verða gjörbreytt í lok aldarinnar frá því sem nú er. Síðustu ár var hitafar slíkt að rækta mátti korn til skepnufóðurs á helmingi láglendis. Raungerist hlýrri sviðsmyndir verður hægt að rækta það til manneldis á nær öllu ræktarlandi.”
Það sést einnig í smá ljós í lýsingunni á hlýnun hafsins: “Frá 1995 til 2020 hefur hlýr og selturíkur Atlantssjór verið ráðandi fyrir norðan land. […]
Aukning hefur orðið á magni svifþörunga, bæði á Íslandsmiðum og á stóru svæði suður af Íslandi. […] Fyrir norðan land hafa orðið breytingar á magni og útbreiðslu mikilvægra dýrasvifstegunda með hækkandi hitastigi sjávar. Þar hefur hlutur rauðátu aukist”. Tekið skal fram hér að þessi gróður og smádýr eru nauðsynleg fyrir fiskveiðar landsmanna.
Og afleiðingarnar: “Hækkandi hitastig á íslenska landgrunninu hefur leitt til breytinga á útbreiðslu margra fisktegunda. Tegundir, til dæmis ýsa, sem hafa verið við nyrðri mörk útbreiðslu sinnar á Íslandsmiðum og fundist að mestu í hlýja sjónum sunnan og vestan við landið, hafa
stækkað útbreiðslusvæði sitt til norðausturs.” Þetta á almennt við um botnfisktegundir (svo sem þorsk) sem og um uppsjávartegundir eins og síld og makríl.
Hins vegar hefur
kólnun sjávar suðvestan við landið haft neikvæð áhrif: “Nýliðun margra hlýsjávartegunda, svo sem humars, blálöngu og skötusels, hefur minnkað mikið á undanförnum árum. Þessa neikvæðu þróun má meðal annars rekja til breyttra umhverfisskilyrða í hafinu síðastliðin 20 ár. Um er að ræða tegundir sem halda sig aðallega í hlýjum sjó við suður- og vesturströndina.”
Í kaflanum um atvinnuvegi koma einnig fram jákvæð áhrif hlýnunarinnar: “Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á ræktun nytjaplantna á Íslandi. Ræktunaröryggi mun aukast og nýjar plöntur teknar til ræktunar í landbúnaði, garðyrkju og skógrækt. Vegna breyttra ræktunarskilyrða mun jarðrækt á fæðu-, fóður-, viðar- og orkuplöntum aukast.”
Í kafla um byggða innviði er flest neikvætt tínt til en þó eru þar ljósir punktar: “Rýrnun jökla vegna loftslagsbreytinga hefur mikil áhrif á vatnsaflsframleiðslu á Íslandi. aukning, sem þegar hefur átt sér stað, hefur verið nýtt í núverandi kerfi vatnsaflsvirkjana og miðlana þeirra”.
Einnig þetta: “Hlýnun getur dregið úr eftirspurn eftir orku til húshitunar”.
Sömuleiðis þetta: “Loftslagsbreytingar hafa áhrif á vegasamgöngur […] Þær geta […] dregið úr þörf á snjómokstri”.
Aftur um hafísinn: “Hafís á siglingaleiðum nærri Íslandi hefur dregist saman á undanförnum áratugum […] Verði hnattræn hlýnun á bilinu 1.5–2.0°C er líklegt að sumarhafís hverfi að mestu af Íshafinu sum ár, en hlýni meira en 3°C muni það gerast flest ár. Dragist hafís verulega saman opnast nýjar siglingaleiðir um Íshafið.”
 
Almennt einkennir þessa skýrslu krafan um aukið fjármagn til rannsókna á áhrifum loftlagsbreytinganna, m.a. til þeirrar stofnunar sem stendur að skýrslunni!
Lykiláherslan nú er á aðlögun en ekki á það að reyna að stöðva hlýnunina eða draga verulega úr henni eins og áður var! Slagurinn tapaður?
https://acrobat.adobe.com/link/review?uri=urn%3Aaaid%3Ascds%3AUS%3Adf25e307-8696-3b8c-bd79-ae589f8d1953


mbl.is „Farin að hríslast um allt þjóðfélagið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins neikvæð áhrif?

Ef lesinn er þessi útdráttur Moggans á samantektarskýrslu vísindanefndar um loftlagsbreytingar gæti maður haldið að áhrif breytinganna séu einungis neikvæð hér á landi og við landið. En er það svo?
Með hlýnandi veðurfari eykst hagsæld bæði til sjós og lands. Aukin fiskgengd verðmætra tegunda eins og makríls við hlýnun sjávar er til marks um það auk þess sem hafísinn, landsins forni fjandi, hefur ekki gert sig heimankominn mörg undanfarin ár. 
Á landi hefur hlýnunin m.a. haft þau áhrif að kornrækt hefur aftur hafist eftir margra alda hlé. Vor og haust hafa og lengst til muna þannig að vaxtartími gróðurs hefur aukist mikið og landið gróið upp mjög víða. Þá hefur skógrækt eflst mjög sem á kuldatímabilum var óhugsandi. Hlýnandi veðurfar hefur og gert það að verkum að útivist landmanna hefur aukist til muna, fjallgöngur og fleira, auk þess sem ferðamenn njóta góðs af bættu loftslagi, sérstaklega yfir vetrartímann.
Þá lýsti Landsvirkjun því yfir nýlega að bráðnun jöklanna hafi aukið rennsli vatnsfalla og þar með rafmagnframleiðsluna það mikið að sem samsvari heilli stórri virkjun.

Ekkert af þessu er nefnt í úttektinni heldur einungis það hugsanlega neikvæða einhvern tímann í framtíðinni.
Svo er það ábyrgð okkar gagnvart öðrum þjóðum. Nýleg skýrsla Alþjóðabankans sýnir að mjög hefur dregið út fátækt í heiminum á síðustu 20 árum, og þá væntanlega m.a. vegna bættra ræktunarskilyrða matvæla.
Svo hver er þá váin hræðilega sem er verið að innprenta hjá almenningi?


mbl.is Breyta náttúrufari og lífsskilyrðum á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðið á Kamban

Ef nafnið Egon Al­fred Høj­land er gúgglað kemur aðeins upp ein persóna, sem var þingmaður Miðdemókrata á áttunda áratugnum. Hann var fæddur 1916 þannig að þetta passar alveg. 

Þessi flokkur var borgaralegur miðjuflokkur eins og nafnið gefur til kynna, svo það er óhætt að efast um að þessi maður hafi verið mjög róttækur anti-nasisti, og sem einnig má spyrja sig um dönsku andspyrnuhreyfinguna sem slíka. 

https://da.wikipedia.org/wiki/Egon_H%C3%B8jland

Sama má segja um Danina sjálfa á árunum fyrir stríð og fyrstu ár stríðsins. Fyrir stríðið þóttust þeir óhultir fyrir Þjóðverjum (þeir væru vinir þeirra þó svo að nasistarnir væru við völd) og létu herinn drabbast niður. Þeir voru og samvinnuþýðir til að byrja með í stríðinu meðan stríðsgæfan var með Þjóðverjum, sendu m.a. 60.000 manns til að berjast með þeim á austurvígstöðvunm (þá var það gegn helv. kommunum), en voru fljótir að snúa við blaðinu þegar stríðsgæfan brást nasistunum.

Við sjáum svipað rússahatur Dana nú (óvinurinn heitir Putin nú, ekki komminn) en þeir eru einna þjóða duglegastar að styrkja Úkraínu gegn Rússum. Þá skiptir engu máli hversu spillt úkraínsk stjórnvöld eru eða hvernig er farið með þjóðernisminnihlutana í landinu.

Annars má benda á mjög góða ævisögu Kambans eftir Svein Einarsson fyrrum Þjóðleikhússtjóra, þar sem stórlega er efast um að Kamban hafi verið hliðhollur nasistum.


mbl.is Banamaður Kambans nafngreindur í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver borgar fyrir þetta?

Eitthvað hljóta nú þessir norsku kafarar að kosta. Þar sem þeir eru jú á vegum Hafrannsóknarstofnunar (eða hvað?) er spurning hvort hún þurfi sjálf að kosta þessar aðgerðir - og þar með íslenskir skattgreiðendur - eða hvort að sökudólgurinn, Arctic Fish, beri kostnaðinn? 

Nú er það fullsannað að mikill fjöldi eldislaxa hefur sloppið úr kvíum þessa fyrirtækis í Patreksfirði og fundist ótrúlega víða í vestfirskum og norðlenskum laxveiðiám.
Ekkert heyrist þó frá stjórnvöldum hvort og þá hvaða refsiaðgerðum þetta norska fyrirtæki verði beitt og er allt eins líklegt að eftirmálarnir verði engir. Það má jú ekki flæma erlenda fjárfesta frá landinu (og helst þurfa þeir ekki að borga neitt til samfélagsins)!
Ekkert hefur heldur komið fram hvort eigendur laxveiðiréttinda, þar sem þessir eldislaxar hafa fundist, eigi rétt á einhverjum skaðabótum, hvað þá hve miklum.

Já, undarlegur er þessi heimur okkar orðinn og tjónkunin við peningaöflin, öðru nafni athafnaskáldin, ekki síst ef það eru útlendingar sem eiga í hlut.


mbl.is Norsku froskmennirnir skutluðu tólf laxa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"óvinaríkið"?

Það er auðvitað alltaf athyglisvert að heyra í ráðamönnum í Washington hverjir séu óvinir Kanans þó svo að það fylgi sjaldan hvers vegna. Í fréttinni er talað um "ögrandi aðgerðir" en ekki nánar tiltekið í hverjum þær séu fólgar.

Kannski að írönsk stjórnvöld hafa gerst svo djörf að standa uppi gegn hagsmunapólitík Kanans þarna eystra. Allir sem gera slíkt eru jú óvinir þessa illa heimsveldis og sýna með því ögrandi aðgerðir. 

Hér er ein gömul, góð vísa um blessaðan Kanann og gæði hans hér á landi sem annars staðar í heiminum: "Hinn amríski stríðsguð sem stendur á verði / hann stuggar burt föntum með logandi sverði" osfrv.

https://glatkistan.com/2021/11/03/lofsongur-2/

 


mbl.is Fangaskiptum fagnað en varnaglar slegnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Torfi Kristján Stefánsson

Höfundur

Torfi Kristján Stefánsson
Torfi Kristján Stefánsson
Höfundur er áhugamaður um hina ólíkustu hluti

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 100
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 349
  • Frá upphafi: 459270

Annað

  • Innlit í dag: 82
  • Innlit sl. viku: 309
  • Gestir í dag: 77
  • IP-tölur í dag: 76

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband